Enski boltinn

Enn bíða leikmenn Portsmouth eftir laununum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth hafa enn ekki fengið laun sín fyrir desembermánuð en félagið hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum.

Félagið sætir nú kaupbanni og skattayfirvöld í Bretlandi hafa krafist þess að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna vangoldinna skatta.

Forráðamenn Portsmouth vonast þó til þess að geta greitt laun í dag og að greitt verði úr fjármálaflækjunni á næstu vikum - helst fyrir lok mánaðarins svo félagið geti keypt leikmenn. Portsmouth er sem stendur í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Peter Storrie, framkvæmdarstjóri Portsmouth, viðurkenndi þó að það væri óhjákvæmilegt að félagið þyrfti að selja leikmenn á næstunni.

„Ef eina leiðin til að halda félaginu gangandi er að selja nokkra leikmenn verðum við að gera það. En það er undir eigandanum komið," sagði Storrie við enska fjölmiðla.

„Það lítur vissulega ekki vel út en hinn kosturinn er sá að félagið fari í greiðslustöðvun."

Greint var frá því í gær að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar tóku þær sjö milljónir punda sem Portsmouth átti að fá í vegna sjónvarpstekna hafi verið skipt á milli þeirra félaga í deildinni sem Portsmouth skuldar vegna leikmannakaupa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×