Innlent

Heimasóttkví hrossa er aflétt

Hross gangast undir ítarlega heilbrigðisskoðun dýralæknis áður en þau fá útflutningsleyfi.
Hross gangast undir ítarlega heilbrigðisskoðun dýralæknis áður en þau fá útflutningsleyfi.

Matvælastofnun hefur ákveðið að aflétta hinni formlegu heimasóttkví útflutningshrossa frá áramótum, þar sem lítið hefur borið á sjúkdómnum að undanförnu. Þetta er gert með þeim fyrirvara að sjúkdómurinn blossi ekki upp á ný.

Útflutningur hrossa hefur gengið vel í haust og hafa ríflega 1.000 hross farið utan nú í byrjun desember, samkvæmt upplýsingum frá MAST.

Eins og kunnugt er gera lönd í Evrópusambandinu þær kröfur að hross sem þau taka við séu án sjúkdómseinkenna og það sama eigi við um öll hross sem þau hafi umgengist undangengna þrjátíu daga svo og sextíu daga við flutning til Bandaríkjanna. Vegna smitandi hósta var nauðsynlegt að setja tímabundið reglur um heimasóttkví útflutningshrossa til að uppfylla framangreind skilyrði. Það fyrirkomulag hefur reynst afar vel og engar fregnir hafa borist um að veikin hafi komið upp í útfluttum hrossum. Aðeins örfá hross hafa ekki staðist heilbrigðis­skoðanir og hefur útflutningi á þeim verið frestað.

Það verður áfram á ábyrgð seljenda að útflutningshross hafi ekki verið í samneyti við hross með einkenni smitandi hrossa í að minnsta kosti einn mánuð fyrir útflutning. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×