Íslenski boltinn

Kristján: Meistaraheppnin er með okkur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Gunnar Einarsson skallar boltann í leiknum í gær.
Gunnar Einarsson skallar boltann í leiknum í gær. Fréttablaðið/Anton
Leiknismenn lentu undir gegn Þrótti á heimavelli sínum í gær en börðust til baka og hirtu öll þrjú stigin sem í boði voru. Liðið er þar með komið með tveggja stiga forystu á Víkinga þegar sex umferðir eru eftir.

Leiknismenn eru mjög sterkir á heimavelli og hafa enn ekki tapað þar í sumar. Þeir byrjuðu betur í gær og Kristján Páll Jónsson fékk tvö færi strax í byrjun. Það var nokkuð gegn gangi leiksins að Erlingur Jack Guðmundsson kom Þrótti yfir. Markið var glæsilegt, hann sneri sér í teignum og setti boltann í fallegum boga í fjærhornið.

Þróttarar voru betri í byrjun seinni hálfleiks og fengu dauðafæri þegar Hörður Bjarnason slapp einn í gegn. Eyjólfur Tómasson markmaður sá þó við honum og varði mjög vel.

Eftir um 70 mínútur var eins og Þróttarar væru hreinlega orðnir þreyttir og heimamenn gengu á lagið. Þeir sóttu mikið og uppskáru jöfnunarmark þegar Gunnar Einarsson stýrði boltanum í markið úr vítateignum.

Undir lokin skoraði svo Kristján Páll gott mark eftir frábært upphlaup og tryggði Leikni sigurinn.

„Ég vil meina að gott form hafi skilað þessu. Við erum búnir að æfa eins og skepnur og vorum á fullu allan leikinn. Við tókum þá á forminu," sagði Kristján.

„Það er meistaraheppni á okkur en við sköpum okkar eigin heppni. Þróttarar eru hættulegir ef þeir komast yfir en við höfðum allan tímann trú á þessu. Steini (Sigursteinn Gíslason, þjálfari, innsk.) sagði okkur í hálfleiknum að örvænta ekki. Við vorum ekki sáttir með leikinn en meistaraheppnin féll með okkur," sagði Kristján sem hrósaði svo stuðningsmönnum Leiknis.

„Það er alltaf gaman að spila hér á Ghetto Ground og við erum með fullt hús á heimavelli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×