Fótbolti

Aston Villa tapaði fyrir Rapíd Vín annað árið í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Rapíd fagna sigrinum í kvöld.
Leikmenn Rapíd fagna sigrinum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Annað árið í röð féll Aston Villa úr leik í Evrópudeild UEFA eftir að hafa tapað fyrir Rapíd Vín frá Austurríki.

Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli í Austurríki en Aston Villa komst snemma yfir í leik liðanna í kvöld með marki Gabriel Agbonlahor.

Austurríkismenn náðu að jafna metin snemma í síðari hálfleik með marki Atdhe Nuhiu en Emile Heskey kom Aston Villa aftur yfir á 77. mínútu.

Aðeins mínútu síðar jafnaði Mario Sonnleitner fyrir Rapíd Vín og Rene Gartler skoraði svo sigurmark liðsins á 81. mínútu.

Aston Villa misnotaði meira að segja vítaspyrnu í síðari hálfleik en Stiliyan Petrov brenndi af vítinu sem var dæmt eftir að Sonnleitner braut á Heskey.

Þá vann Manchester City 2-0 sigur á Timisoara frá Rúmeníu á heimavelli í kvöld og samanlagt, 3-0. Shaun Wright-Phillips og Dedryck Boyata skoruðu mörk City í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×