Innlent

Fleiri á bráðamóttöku geðsviðs eftir hrunið

Geðdeild landspítala Álagið á geðsvið Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur aukist jafnt og þétt meðan fjárveitingar hafa verið skornar niður um 4,6 prósent 2009 og 6,9 prósent 2010.
Geðdeild landspítala Álagið á geðsvið Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur aukist jafnt og þétt meðan fjárveitingar hafa verið skornar niður um 4,6 prósent 2009 og 6,9 prósent 2010.

Komum á bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans fjölgaði um rúm tíu prósent frá því að hrun hófst í október 2008 og til loka september 2009. Notkun geðlyfja hefur hins vegar staðið í stað, eða heldur minnkað á sumum tegundum á milli ára 2008 og 2009. Tíðni sjálfsvíga hefur ekki breyst og sjálfsvígstilraunum sem leiða til komu á sjúkrahús hefur fækkað verulega allt frá árinu 2006 til 2009.

Þetta kom fram í viðtali Fréttablaðsins við Pál Matthíasson, framkvæmdastjóra geðsviðs LSH, og Matthíasi Halldórssyni aðstoðarlandlækni.

„Á fyrstu þremur mánuðum eftir hrunið varð sautján prósent aukning á komum á bráðamóttöku, sem hefur heldur jafnast út,“ útskýrir Páll. „Innlögnum á bráðageðdeildir fjölgaði um rúm sex prósent 2008-09. Hins vegar fækkar legudögum vegna styttri legutíma sjúklinga. Meðallegutími nú er ellefu dagar á bráðageðdeildum, en heldur styttri fyrir flesta.“

Páll segir að fækkun legudaga stafi meðal annars af því að betur gangi nú en áður að koma fólki í önnur úrræði eftir dvöl á geðdeild. Þetta þýði að geðsviðið hafi meiri getu til að taka inn nýja sjúklinga. Aukning í innlögnum felist ekki í því að fólk sé að koma aftur vegna þess að það hafi verið útskrifað of snemma.

Matthías bætir við að opnuð hafi verið ný móttaka í kjölfar hruns.

„Hún var mjög lítið notuð svo henni var fljótlega lokað aftur,“ segir hann.

„Hvað sjálfsvígin varðar hafa meðaltöl þeirra verið 35 á síðustu tíu árum. Bráðabirgðatala fyrir árið 2009 er 32 sjálfsvíg.“

Páll segir fólk þurfa að vera meðvitað um að kreppa hafi áhrif á heilsufar, einkum andlega heilsu. Jaðarhópum hætti til að lenda í vanda, svo sem öldruðum, útlendingum, fólki með geðfatlanir og börnum þessara hópa.

„Það verður að halda sérstaklega utan um þetta fólk og standa vörð um það.“

Páll segir eftirtektarvert að innlögnum vegna áfengis- og vímuefna hafi fjölgað um rúm sex prósent milli 2008 og 2009.

„Heildarniðurstaðan er sú, að álagið hefur aukist jafnt og þétt á geðsviðið,“ segir Páll, „meðan fjárveitingar hafa verið skornar niður um 4,6 prósent 2009 og 6,9 prósent 2010“.jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×