Viðskipti erlent

Lénið sex.com sett á uppboð

Klám selur og þá sérstaklega á netinu. Það vita eigendur verðmætasta lénsins á netinu, sex.com, og því hafa þeir ákveðið að setja lénið á uppboð. Uppboðið hefst á lágmarksboði upp á eina milljón dollara eða um 128 milljónir kr. en það verður haldið í næstu viku.

Eigendi sex.com er bandaríska fyrirtækið DOM Partners og þeir munu hafa borgað 14 milljónir dollara eða tæpan 1,8 milljarð kr. fyrir lénið árið 2006, að því er segir í frétt á börsen.dk um málið. Þetta er hæsta verð sem nokkurn tíma hefur verið borgað fyrir lén á netinu. Reiknað er með að það met verði slegið í næstu viku.

Sex.com er ekki léleg fjárfesting fyrir eigenda þess. Samkvæmt bók sem skrifuð var um sex.com árið 2008 munu tekjur af léninu hafa numið hátt í 2 milljónum kr. á dag á tímabili. Sex.com var upphaflega skráð árið 1994 í eigu Gary Kremen stofnanda stefnumótasíðunnar Match.com.

Samkvæmt bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC er lénið Fund.com það næstdýrasta í heiminum en það er talið tæpega 10 milljón dollara virði. Í þriðja sæti er Porn.com sem talið er um 9 milljón dollara virði og í þriðja sæti er Diamonds.com sem talið er um 8 milljón dollara virði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×