Innlent

Stöndum öll undir dómi Guðs

Séra Karl Sigurbjörnsson Biskup segir mannorðsmorð ósjaldan stundað af þeim sem ákafast veifa fánum siðavendninnar.Fréttablaðið/Valli
Séra Karl Sigurbjörnsson Biskup segir mannorðsmorð ósjaldan stundað af þeim sem ákafast veifa fánum siðavendninnar.Fréttablaðið/Valli

„Hin tæra, íslenska viðskiptasnilld var hátt rómuð, en lítt var spurt út í heilindi og heiðarleika, aga og trúfesti. Afleiðingin verður menning gagnkvæmrar tortryggni og vantrausts,“ sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóðkirkjunnar, í áramótaávarpi.

„Um næstu mánaðamót má vænta niðurstöðu rannsóknarnefndar um bankahrunið. Þjóðin bíður í ofvæni og kvíða þess sem boðað hefur verið sem einhver verstu tíðindi sem nokkur nefnd hefur þurft að færa. Það verður dómsdagur þegar það sem hulið hefur verið verður opinbert. Og hvað verður gert með það, hvernig munum við sem þjóð vinna úr því? Það varðar mestu. Við megum ekki gleyma því að við erum ekki aðeins undir dómi manna. Það er annar dómur sem við stöndum öll undir: Dómur Guðs,“ sagði Karl.

Biskup sagði menn óspara á yfirlýsingar og sleggjudóma. „Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar.“

Karl sagði að áður hefðu Íslendingar verið þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. „Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flestallt sé afstætt. Okkar kynslóð hefur notað Excel til þess að kæfa samviskuna. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð,“ sagði biskupinn.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×