Íslenski boltinn

Ólafur: Alltaf verið að segja að liðið sé efnilegt, en mér finnst það gott

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fréttablaðið/Anton
Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks var ánægður með lið sitt eftir að þeir unnu baráttuglatt lið Hauka 4-2 á tímabundnum heimavelli Hauka á Vodafone vellinum. Þessi sigur fleytti þeim í annað sæti, tveimur stigum eftir Keflavík.

„Þetta var erfiður leikur fyrir okkur, við spiluðum 120 mínútur við FH á fimmtudaginn og erum að spila marga leiki eins og öll önnur lið í deildinni. Við lentum undir en strákarnir unnu sig vel út úr því og ég er ánægður með stigin þrjú."

Lið Blika gerði vel með því að koma aftur eftir að hafa lent undir rétt fyrir hálfleik, þeir lentu í því í fyrra að tapa niður leikjum en eru greinilega reynslunni ríkari.

„Það er náttúrulega komin reynsla í hópinn, það er alltaf verið að segja að þetta lið sé efnilegt en mér finnst það gott. Þegar lið er orðið gott þarf að klára svona leiki, þreyta og einbeitingarleysi stríddu okkur í fyrri hálfleik en við kláruðum þetta gríðarlega vel."

Andri Rafn Yeoman kom afar sterkur inn af varamannabekk Blika og setti fyrsta mark sitt í Pepsideildinni.

„Andri er búinn að koma öflugur inn í leikina undanfarið og þennan líka, hann er gríðarlega efnilegur. Næsti leikur er eftir viku og þegar ég púsla liðið saman á hann góðan möguleika eins og allt liðið " sagði Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×