Fótbolti

Benitez tekur líklega við Inter í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, fyrrum stjóri Liverpool.
Rafa Benitez, fyrrum stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Massimo Moratti, forseti Evrópumeistara Inter, sagði í gærkvöldi að samkomulag væri nánast í höfn við Rafa Benitez um að hann taki að sér knattspyrnustjórn liðsins.

Benitez hætti í síðustu viku sem knattspyrnustjóri Liverpool og hefur átt í viðræðum við Inter síðustu daga.

Moratti sagði við ítalska fjölmiðla í gær að hann teldi afar líklegt að gengið yrði frá samningum við Inter á næsta sólarhring.

„Já, ég held það. Samningurinn er nánast tilbúinn. Það er ekkert öruggt fyrr en búið er að skrifa undir en við höfum strax frá fyrsta degi reynt að fá Benitez. Hann er sá stjóri sem við teljum að geti haldið Inter á sama stalli og liðið er á," sagði Moratti.

Hollendingurinn Wesley Sneijder, leikmaður Inter, var spenntur fyrir því að fá Benitez til Inter. „Ég vann allt með Inter á þessu tímabili og er enn hungaður. Ég hef rætt við nokkra félaga mína úr hollenska landsliðinu sem spila hjá Liverpool um Benitez og allir segja mér að hann sé góður þjálfari."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×