Skoðun

Mannréttindi tryggð

Eygló Harðardóttir skrifar
Fyrrverandi forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson, fullyrðir að þeir fyrrverandi ráðherrar sem Alþingi íhugar nú að stefna fyrir landsdóm sæti málsmeðferð sem stríði gegn mannréttindum. Einu rök hans virðast vera að landsdómur byggi á stjórnskipun nítjándu aldar. Því sé réttlætanlegt að víkja til hliðar stjórnarskrá og lögum landsins. Mannréttindi sem hluta af nútíma stjórnskipun má rekja til nokkurra sögulegra skjala; hins breska Magna Carta (1215), frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar (1789), mannréttindaviðauka bandarísku stjórnarskrárinnar (1789) og mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna (1948). Það eitt að lögin um landsdóm eigi sér gamlar rætur þýðir því ekki sjálfkrafa að þau stríði gegn nútíma mannréttindum.

Ég tel þvert á móti að vel hafi verið gætt að mannréttindum í meðferð málsins og treysti að svo verði áfram ákveði Alþingi að stefna umræddum fyrrum ráðherrum fyrir landsdóm. Þá afstöðu mína byggi ég m.a. á niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli danska ráðherrans Erik Ninn-Hansen. Danska þingið skipaði rannsóknarrétt, sambærilegan rannsóknarnefnd Alþingis, til að rannsaka hvort einstaklingar innan stjórnkerfisins hefðu brotið lög um pólitíska flóttamenn. Ráðherra fékk afrit af yfirheyrslum en þær voru annars að mestu leyti opinberar. Ráðherra fékk einnig að hafa með sér lögfræðing og gat neitað að tjá sig til að bera ekki á sig sök. Sama gilti hér, en til viðbótar samþykkti Alþingi að ekki mætti byggja á yfirheyrslunum fyrir dómstólum.

Skýrsla rannsóknarréttarins danska var tekin fyrir í þingskapanefnd danska þingsins þar sem meirihluti samþykkti að stefna ráðherranum fyrir ríkisrétt. Þar komu ráðherrar ekki fyrir nefndina. Hér fengu ráðherrar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við þingmannanefndina.

Í kærunni til Mannréttindadómstóls Evrópu var m.a. kvartað undan óréttlátri málsmeðferð fyrir rannsóknarréttinum, að ríkisrétturinn hafi ekki verið óháður og óvilhallur dómstóll, að sakborningur hefði ekki fengið að leiða vitni fyrir dóminn, að heimilað hefði verið að leggja afrit yfirheyrslna fyrir rannsóknarréttinum fyrir ríkisréttinn, að meðferð málsins hefði haldið áfram þrátt fyrir slæmt heilsufar sakbornings og málinu ekki lokið innan hæfilegs tíma.

Öllum kæruatriðum var vísað frá. Þar sem réttindi íslensku ráðherranna fyrrverandi eru jafnvel betur tryggð en þess danska tel ég að hin íslenska málsmeðferð standist kröfur Mannréttindadómstóls Evrópu. Ákvörðun Alþingis verður því að byggjast á efnisatriðum málsins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×