Innlent

Enn víða hvasst

Frá Neskaupstað síðdegis
Frá Neskaupstað síðdegis
Fjölmargir björgunarsveitarmenn hafa haft nóg að gera í dag og í kvöld vegna aftakaveðurs víðsvegar um landið. Dregið hefur úr vindi eftir því sem liðið hefur á kvöldið en þó er ennþá hvasst á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Þar er ekkert ferðaveður samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni fyrr í kvöld.

Talvert tjón varð í dag en engin slys urðu á fólki. Þakplötur fuku af húsum á suðvesturhorni landsins seinnipartinn. Í Sandgerði fuku kör á bíla í höfninni og í Grindavík fuku lausir munir, þakplötur og flaggstangir.

Björgunarsveitin á Dalvík fylgdi bíl með veikt barn til Akureyrar og í Húnaþingi vestra var ökumaður sóttur í bíl sinn við Laugabakka þar sem viðkomandi ekki sá út úr augum. Á höfuðborgarsvæðinu losnaði fyrrum varðskipið Þór frá bryggju í Gufunesi og strandaði í fjörunni.


Tengdar fréttir

Björgunarsveitir í útköllum

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði fór á Fjarðarheiði til að aðstoða bíl sem festist á heiðinni í mikilli ofankomu en slæmt veður er á heiðinni eins og víðar um land. Heiðin er ófær en ekkert amaði að fólkinu í bílnum. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er leiðindaveður á Austurlandi og enn verra niðri á Fjörðum og upp til heiða.

Myndband af þakinu rifna

Þök rifnuðu af húsum í Keflavík, gamla varðskipið Þór strandaði við Gufunes og bílar hafa fokið til víða um land í aftakaveðri sem geisað hefur í allan dag. Með myndskeiðinu sem fylgir þessari frétt sést meðal annars þegar þak fauk af húsi við Austurgötu í Keflavík á fjórða tímanum.

Ekkert ferðaveður og búist við stormi

Ekkert ferðaveður er á landinu í dag og búist er við stormi. Veðurstofan spáir vaxandi norðanátt víða 18 til 25 metrum á sekúntu upp úr hádegi. Él og síðar snjókoma um landið norðanvert, en stöku él sunnantil. Dregur úr vindi seint í kvöld, fyrst austantil.

Bálhvasst á Kjalarnesi - bílar hafa fokið til

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu segir að þessa stundina sé ekkert ferðaveður á Kjalarnesi. Við Esjumela hafa bílar fokið til í hvassviðrinu. Þá er einnig mjög hvasst í Mosfellsdal.

Þök fjúka á Suðurnesjum

Vonskuveður er á Suðurnesjum líkt og út um allt land. Vísir fékk rétt í þessu sendar myndir þar sem sést hvernig vindurinn er byrjaður að rífa upp þök á húsum. Fleiri hrikalegar myndir sem náðust af þaki rifna upp verða sýndar í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Snælduvitlaust veður á Austurlandi - björgunarsveitir í biðstöðu

Björgunarsveitir á Austurlandi hafa frá því í klukkan fimm í morgun sinnt fjölda aðstoðarbeiðna og veður þar er að sögn heimamanna ennþá „snælduvitlaust". Á þessari stundu er hlé á aðgerðum en björgunarsveitir bíða í húsi og búast við nýrri törn síðar í dag þegar vaktaskipti verða í álveri Alcoa á Reyðarfirði og fólk þarf að komast til síns heima á fjörðunum. Auk útkalla í Þorlákshöfn og Árborg sem urðu rétt fyrir hádegi hafa á síðasta tímanum björgunarsveitir í Borgarfirði eystra, Garði, Sandgerði, Mosfellsbæ og Kjalarnesi verið kallaðar út. Í flestum tilvikum er um fok á þakplötum eða að þök eru að losna af húsum. Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu eru í viðbragðsstöðu í húsum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×