Innlent

Sýslumaðurinn á Hvolsvelli og Umferðarstofa stofnanir ársins

Sýslumaðurinn á Hvolsvelli og Umferðarstofa stofnanir ársins. Kjartan Þorkelsson gegnir embætti sýslusmanns á Hvolsvelli.
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli og Umferðarstofa stofnanir ársins. Kjartan Þorkelsson gegnir embætti sýslusmanns á Hvolsvelli.

Umferðarstofa og Sýslumaðurinn á Hvolsvelli eru stofnanir ársins 2010 samkvæmt könnun SFR stéttarfélags sem stendur að vali á stofnun ársins. Niðurstöðurnar voru kynntar á Hótel Nordica seinnipartinn í dag.

Könnunin er gerð í samstarfi við VR eins og undanfarin ár en það félag hefur gert sambærilegar kannanir í á annan áratug en SFR stendur nú fyrir könnuninni í fimmta sinn. Um 30 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði fengu könnunina senda. Þátttakendur voru spurðir út í vinnutengda þætti eins og trúverðugleika stjórnenda, sjálfstæði í starfi, vinnuálag, vinnuskilyrði, álag og kröfur, sveigjanleika í starfi og fleira.

„Niðurstöður könnunarinnar er mikilvægt framlag til vinnumarkaðsrannsókna á Íslandi, enda sú stærsta sinnar tegundar," segir í tilkynningu frá SFR.

Könnunin var gerð meðal allra félagsmanna SFR á opinberum og almennum vinnumarkaði. Forstöðumönnum og stjórnendum var gefinn kostur á að láta alla starfsmenn stofnunarinnar, óháð því í hvaða stéttarfélögum þeir væru, taka þátt og nýttu 34 stofnanir sér það. Alls tóku tæplega 200 stofnanir þátt í ár og rúmlega 4000 starfsmenn.

Líkt og í fyrra er stofnunum skipt eftir stærð. Í hópi minni stofnana fékk Sýslumaðurinn á Hvolsvelli hæstu einkunn, eða 4,73 í heildareinkunn af 5 mögulegum. Í öðru sæti var Sýslumaðurinn í Vík, sem varð hlutskarpastur í fyrra og í því þriðja var Skattrannsóknarstjóri ríkisins, en hann vermdi einnig það sæti í fyrra. Í hópi stærri stofnana fékk Umferðarstofa hæstu einkunn, 4,18 í heildareinkunn af 5 mögulegum, en sú stofnun varð einnig hlutskörpust í fyrra. Í öðru sæti var Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Austurlandi og í því þriðja var Landgræðsla ríkisins. Hástökkvarinn í ár er Sýslumaðurinn á Siglufirði, en stofnunin bætti sig um 48 sæti á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×