Skoðun

Einar Skúlason: Græn borg er skemmtileg borg

Reykjavíkurborg á að vera í fararbroddi í umhverfismálum. Ekki er nóg að stíga græn skref, þótt þau séu góð. Við þurfum græna byltingu.

Fjölmargt má gera betur. Það þarf að auka flokkun á sorpi, meðhöndla úrganginn betur og nýta í verðmætasköpun. Við þurfum að þétta byggðina án þess að ganga á græn svæði. Við viljum gefa áhugahópum kost á því að taka svæði í borgarlandinu í fóstur, s.s. róluvelli, torg og græn svæði. Við þurfum að fegra hverfi borgarinnar. Það þarf að auka þjónustu við þá sem ferðast á umhverfisvænan hátt og auka framboð umhverfisvænna orkugjafa. Það ætti að skylda borgarstofnanir til þess að kaupa einungis umhverfisvæna bíla sem lið í umhverfisvænni innkaupastefnu.

Margar útivistarperlur er að finna innan borgarmarkanna. Ég vil nefna sérstaklega vatnasvið Elliðaár og vatnasvið Úlfarsár. Það þarf að vinna heildarskipulag fyrir bæði þessi svæði með sérstakri áherslu á aðstöðu til útivistar og fræðslu um náttúru og umhverfi.

Markmið umhverfisverndar þjóna þeim tilgangi að gera borgina fallegri og betri til að búa í. Leiðum til að njóta borgarinnar og þess sem hún hefur upp á að bjóða fjölgar í kjölfarið. Um leið og við leggjum áherslu á umhverfismál, styðjum við á sama tíma við holla hreyfingu og útivist. Við bætum aðstöðuna til hjólreiða, sjósunds og hestamennsku svo fátt eitt sé nefnt. Í nafni umhverfisverndar og betra mannlífs getum við fjölgað gönguleiðum um náttúru borgarlandsins, um Heiðmörk, Öskjuhlíð og hlíðar Esjunnar.

Lykilatriðið er þetta: Græn borg er skemmtileg borg. Í þeim anda á að byggja upp borgina.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×