Innlent

Vinnuhópur skipaður til að kanna möguleika á millidómstigi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Tómas Magnússon er formaður vinnuhópsins. Mynd/ E. Ól.
Sigurður Tómas Magnússon er formaður vinnuhópsins. Mynd/ E. Ól.
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur skipað vinnuhóp sem taka á til skoðunar hvort setja skuli á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, fara yfir kosti þess og galla og meta hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið. Vinnuhópurinn á að skila niðurstöðum sínum til ráðuneytisins fyrir 1. apríl næstkomandi.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að skipan vinnuhópsins sé ákveðin með hliðsjón af áskorun Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Ákærendafélags Íslands til dómsmálaráðherra um að hann beiti sér fyrir því að sett verði á fót millidómstig í sakamálum og einkamálum fyrir 1. júlí 2011. Félögin settu fram þá hugmynd að millidómstigið gæti verið skipað sex dómurum, þannig að unnt væri að skipa í tvær þriggja manna deildir.

Í vinnuhópnum eiga sæti Sigurður Tómas Magnússon, prófessor, sem er formaður vinnuhópsins, Ása Ólafsdóttir, hrl. og lektor við HÍ, Símon Sigvaldason, héraðsdómari og formaður dómstólaráðs, og Benedikt Bogason, héraðsdómari og ritari réttarfarsnefndar. Skal vinnuhópurinn hafa samráð við fulltrúa framangreindra félaga við vinnu sína og hefur þeim verið boðið að tilnefna tengilið af sinni hálfu við vinnuhópinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×