Fótbolti

Japanar unnu Kamerún - fyrsti HM-sigur þeirra utan Japans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keisuke Honda fagnar marki sínu.
Keisuke Honda fagnar marki sínu. Mynd/AP
Japanar unnu sögulegan sigur þegar liðið vann 1-0 sigur á Kamerún í fyrsta leik liðanna í E-riðli HM í Suður-Afríku í dag. Þetta er fyrsti sigur Japana í úrslitakeppni HM utan heimalandsins.

Keisuke Honda skoraði eina mark leiksins sjö mínútum fyrir hálfleik eftir að hafa fengið sendingu Daisuke Matsui frá hægri. Honda fékk nægan tíma í markteignum til að leggja boltann fyrir sig og skora.

Kamerúnar komust tvisvar mjög nálægt því að jafna leikinn á lokamínútunum. Varnarmaðurinn Stephane Mbia átti skot í slánna af tæplega 30 metra færi og japanski markvörðurinn Eiji Kawashima, varði síðan frábærlega frá Mohammadou Idrissou í uppbótartíma.

Samuel Eto'o og félagar í Kamerún komust lítið áfram gegn skipulögðu japönsku liði. Eto'o lagði upp frábært færi fyrir Eric Choupo-Moting í upphafi seinni hálfleiks en annars sást fyrirliðinn ekki mikið í leiknum enda týndur út á hægri kanti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×