Innlent

Enn einn handtekinn vegna fjársvikamáls

Í gæsluvarðhaldi Einn grunaðra í málinu er í gæsluvarðhaldi í Venesúela.
Í gæsluvarðhaldi Einn grunaðra í málinu er í gæsluvarðhaldi í Venesúela.
Karlmaður var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklu fjársvikamáli. Maðurinn er talinn tengjast málinu sem snýst um svik á virðisaukaskatti, þar sem sviknar voru út um 270 milljónir króna.

Auk þessa, sem handtekinn var nú, hafa sex manns áður verið handteknir og sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar. Einn þeirra var látinn laus fyrr í þessum mánuði. Hins vegar var gæsluvarðhald yfir hinum fimm, þremur körlum og tveimur konum, sem setið hafa inni vegna rannsóknar lögreglu, framlengt síðastliðinn föstudag. Það rennur út á morgun. Ekki lá fyrir í gær hvort farið verður fram á framlengingu yfir þeim, að sögn Jóns H. B. Snorrasonar, aðstoðarlögreglustjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Einn þeirra sem sætir gæsluvarðhaldi er starfsmaður Ríkisskattstjóra. Starfsmaðurinn er talinn hafa greitt fyrir því að fólkið gat svikið út hátt í þriðja hundruð milljónir króna. Við húsleit lögreglu þegar sexmenningarnir voru handteknir fannst hálf milljón króna í peningum auk ellefu kílóa af hassi.

Áttundi maðurinn sem grunaður er í málinu, Steingrímur Þór Ólafsson, sætir enn gæsluvarðhaldi í Venesúela. Dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir að hann verði framseldur. Enn er ekki ljóst hvenær hann verður framseldur til Íslands, að sögn Smára Sigurðs­sonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. - jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×