Innlent

Vinstri grænir töpuðu 40 milljónum

Forystumenn Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir.
Forystumenn Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir. Mynd/GVA
Samkvæmt ársreikningi Vinstri grænna fyrir 2009 nam tap af rekstri flokksins tæpum 40 milljónum króna. Flokkurinn fékk rúma milljón í styrki frá 13 lögaðilum. Þetta kemur fram á vefsíðu Ríkisendurskoðunar. Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ekki skilað ársreikningum til stofnunarinnar.

Á síðasta ári var kosið til Alþingis. Hæstu styrkirnir sem Vinstri grænir fengu voru 300 þúsund krónur frá Icelandair Group og Högum, 200 þúsund krónur frá N1 og 100 þúsund krónur frá Miklatorgi hf. Félagsgjöld og framlög frá einstaklingum skiluðu flokknum rúmum 27 milljónum króna.

Tap á rekstri Borgarahreyfingarinnar á síðasta ári nam 6,7 milljónum króna. Flokkurinn fékk 850 þúsund í fjárstyrki frá níu lögaðilum. Hæsti styrkurinn var frá Atlantsolíu eða 300 þúsund krónur.

Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra skulu stjórnmálasamtök árlega skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum sem í kjölfarið skal birta útdrátt úr þeim. Þar eiga að koma fram upplýsingar um heildartekjur og gjöld, uppruna tekna og helstu stærðir í efnahagsreikningi. Þá skal greina sérstaklega frá afsláttum sem viðkomandi samtök hafa fengið frá markaðsverði vöru eða þjónustu. Enn fremur skal birta nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög til starfseminnar.

Ríkisendurskoðun hefur nú í samræmi við fyrrnefnd lög birt hér á síðunni útdrátt úr reikningum Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar, Samtaka fullveldissinna og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs fyrir árið 2009. Eins og áður sagði hafa stofnuninni ekki enn borist reikningar frá Framsóknarflokknum, Frjálslynda flokknum, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Útdráttur úr reikningum stjórnmálasamtaka sem enn eiga eftir að skila verður birtur jafnóðum og þeir berast og eftir að Ríkisendurskoðun hefur farið yfir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×