Innlent

Afmæli hafrannsóknarskips eins og afmælis náins vinar

Fjörutíu ár voru í dag liðin frá því að hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson kom til landsins. Skipstjóri Bjarna segir að það hafi verið líkt og náinn vinur hafi fagnað afmæli í dag.

Þann 17. desember árið 1970 kom hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson til landsins, en þá voru 76 ár síðan fiskifræðingurinn Bjarni Sæmundsson kallaði eftir því að Íslendingar keyptu seglskip til æfinga og rannsókna. Áhöfn skipsins og velunnarar þess fögnuðu því fertugsafmæli Bjarna og slógu upp veislu um borð í dag.

Ingvi Friðriksson, skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni, segir skipið hafa reynst afskaplega vel öll þessi ár, en það hljóti að hafa verið bylting fyrir Hafrannsóknarstofnun þegar skipið kom til landsins.

Ingvi segir Bjarna hafi staðið sína pligt með sóma. Hann telur allt eins líklegt að skipið endist í 40 ár til viðbótar.

Ingvi segir skipum á þessum aldri farið að fækka í íslenska flotanum, en þau hafi oft tekið miklum breytingum við endurbætur. Bjarni sé hins vegar að mestu leyti í upprunalegri mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×