Innlent

Lítur svo á að fækkað hafi í stjórnarliðinu

Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sátu, ásamt stjórnarandstöðunni, hjá þegar greidd voru atkvæði um fjárlög.fréttablaðið/gva
Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sátu, ásamt stjórnarandstöðunni, hjá þegar greidd voru atkvæði um fjárlög.fréttablaðið/gva

„Ég met stöðu ríkisstjórnarinnar svo að hún hafi stuðning 32 þingmanna af 63 á Alþingi og þar af leiðandi eins manns meirihluta." Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnar­dóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið eftir atkvæðagreiðslu um fjárlög í gær. Þrír þingmenn VG; Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í yfirlýsingu til þingflokks VG frá í gærmorgun útskýra þremenningarnir afstöðu sína. Í henni segir að þótt nokkuð hafi áunnist í því að afstýra stórslysi í upphaflegum niðurskurðaráformum í heilbrigðisþjónustu og almannatryggingakerfinu sé fjárlagafrumvarpið enn boðberi kreppudýpkandi efnahagsáætlunar sem vegi of harkalega að þeim grunnstoðum sem ríkisstjórnin hafi lofað að standa vörð um. Enn fremur segja þeir ríkisstjórnina og forystumenn hennar þurfa að taka vinnubrögð sín til gagngerrar endurskoðunar. „Vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við gerð fjárlagafrumvarpsins, sem og ýmsum öðrum stórum og afdrifaríkum málum, hafa einkennst af forræðishyggju og foringjaræði frekar en lýðræðislegri ákvarðanatöku."

Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður VG, segir þau orð ómakleg. „Þau þurfa að skýra þetta út. Fjárlagafrumvarpið hefur oft verið rætt í þingflokki VG og allar meginlínur voru kynntar áður en frumvarpið var lagt fram. Þetta er ómaklegt vegna þess að að baki þessarar niðurstöðu stendur stærstur hluti þingflokksins." Um stöðu ríkisstjórnarinnar segir Árni Þór að hún hafi enn meirihluta á þingi.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar, segir þremenningana ráða örlögum ríkisstjórnarinnar. „Þau verða að svara hvað þau ætla að gera. Við vitum ekki hver afstaða þeirra til framhaldsins er."

Hann varð fyrir vonbrigðum með afstöðu þeirra í atkvæðagreiðslunni. „Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Við höfum unnið að þessu fjárlagafrumvarpi í tvo og hálfan mánuð. Ekkert okkar er í sjálfu sér ánægt með að þurfa að gera það sem við erum að gera en aðstæðurnar eru bara svona og við reynum að gera þetta með okkar hætti og öðru vísi en aðrir flokkar hefðu gert við sömu aðstæður. Þau sýna okkur samstarfsfólkinu og þeirri vinnu sem við höfum lagt í þetta verk mikla lítilsvirðingu."

bjorn@frettabladid.is




Tengdar fréttir

Þrír þingmenn VG styðja ekki fjárlagafrumvarpið

Þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs munu ekki styðja fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár. Atkvæðagreiðsla um frumvarpið hófst laust eftir klukkan ellefu í morgun. Þingmennirnir sem telja sig ekki geta stutt frumvarpið eru Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason.

Þríeykinu verður ekki vísað úr þingflokknum

„Ég mun ekki mæla með því að neinum verði vísað úr þingflokknum enda er það ekki í okkar lögum að gera það. Það eru allir velkomnir í okkar þingflokk sem vilja vinna þar og vinna með okkur. Við fögnum öllum stuðningsmönnum ríkisstjórnar sem eru það í reynd,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, í Kastljósi í kvöld.

„Hverjum er sætt í þingflokknum?“

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir engan mun á stefnu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar hvað niðurskurð hjá hinu opinbera varðar. „Spurning hverjum er sætt í þingflokknum. Þeim sem fylgja eftir vilja félaganna og ályktunum flokksins eða þeim sem afvegaleiðast innan múra valdsins,“ segir Lilja á Facebook-síðu sinni í kvöld. Þar vísar hún til ummæla Steingríms J. Sigfússonar í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Þar sagði Steingrímur að Lilju, Atla Gíslasyni og Ásmundi Daða Einarssyni væri tæplega sætt í þingflokknum. „Nei, tæplega eins og ekkert hafi í skorist því þetta er nokkuð erfið uppákoma.“

Framtíð stjórnarsamstarfsins í óvissu

Framtíð stjórnarsamstarfsins er í óvissu eftir að þrír þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í dag, sem var samþykkt með minnstum mögulegum meirihluta á Alþingi. Fjármálaráðherra segir afstöðu þingmannanna vonbrigði og forsætisráðherra segir ekki ljóst hvort hægt sé að treysta á stuðning þremenninganna í framtíðinni.

Meira skorið niður í velferðarmálum en í stjórnsýslunni

Á sama tíma og skorið er verulega niður í mörgum mikilvægum málaflokkum þá er lítið skorið niður í æðstu stjórnsýslu ríkisins, segja þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason í yfirlýsingu sem þau samþykktu fyrir atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið í dag.

Steingrímur vonsvikinn með flokksfélagana

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður VG, segist hafa orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að þrír þingmenn flokksins skuli hafi ákveðið að sitja hjá í afgreiðslu um fjárlagafrumvarpið í dag. Fjárlögin voru samþykkt með 32 atkvæðum en 31 þingmaður sat hjá, þar á meðal þingmenn VG, þau Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Atli Gíslason.

Fjárlagafrumvarpið samþykkt

Þrjátíu og tveir þingmenn greiddu fjárlagafrumvarpinu atkvæði sitt, en atkvæðagreiðslu lauk laust eftir klukkan eitt í dag. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hafði fyrirfram gert grein fyrir því að hún og samflokksmenn hennar, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, myndu ekki greiða frumvarpinu atkvæði sitt. 31 þingmaður sat hjá við atkvæðagreiðsluna en enginn greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.

Ekkert fararsnið á Atla

„Ég þykist vita að flokkurinn standi nógu lýðræðislega sterkum fótum til að þola þessa umræðu,“ segir Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna. Hann segir ekkert fararsnið á sér. „Nei, ég er rótgróinn í flokknum eins og eikartré. Ég er að vona að flokkurinn fari ekki of langt frá mér og stefnumiðum sínum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×