Innlent

Hlustuðu á óraunhæfar hugmyndir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Fjármálaráðuneytið vísar á bug vangaveltum um að komið hafi til greina að semja um lausn Icesave með því að kröfuhafar Landsbankans tækju við þrotabúi hans og greiddu Hollendingum og Bretum Icesave-skuldina.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að komið hefði til greina að leysa Icesave-málið með fyrrgreindum hætti.

„Við blasir að óvarðir kröfuhafar Landsbankans voru aldrei í neinni samningsaðstöðu,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Hún áréttar að ekkert hafi komið fram sem styðji fullyrðingar um að breskum eða hollenskum stjórnvöldum hafi hugnast hugmyndir kröfuhafanna.

„Í raun er þarna um að ræða hugmyndir alþjóðlegra fjármálastofnana sem sjá fram á að fá lítið sem ekkert í kröfur sínar. Þær hafa sumar verið með hótanir um málaferli á grundvelli þess að neyðarlögin, sem hér voru sett til að vernda almenna innstæðueigendur og gerðu kröfur þeirra að forgangskröfum, hafi verið ólögleg.”

Hún segir slíkar hótanir léttvægari eftir ályktun ESA í vikunni um að lögin hafi verið á góðum grunni reist.

Hún segir hins vegar rétt að stjórnvöld hafi fundað með fulltrúum ákveðinna hópa kröfuhafa í þrotabú bankans og að hlustað hafi verið á hugmyndir þeirra. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×