Innlent

Lögreglumenn fá ekki að nota rafbyssur

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Breskur lögreglumaður með rafbyssu.
Breskur lögreglumaður með rafbyssu. Mynd/AFP

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, telur ekki ástæðu til að lögreglumenn fái að nota rafbyssur við skyldustörf. Sá sem verði fyrir skotinu stífni upp og geti ekki hreyft sig á meðan tækið sé í gangi. Þetta kemur fram í svari Ögmundar við fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur, varaþingmanns og framkvæmdastýru VG, um rafbyssur í lögreglustarfi.

Undanfarin þrjú ár hefur verið til skoðunar hvort að taka eigi rafbyssur í notkun hér á landi og vill t.a.m. Landssamband lögreglumanna taka slík tæki í notkun. Snorri Magnússon, formaður landssambandsins, sagði í samtali við fréttastofu í júlí að tryggja yrði öryggi lögreglumanna með rafbyssum. Hann sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu að notkun tækisins yrði heimiluð hér á landi. Ekki þyrfti lagabreytingu en hugsanlega myndi þurfi að breyta ákvæðum um valdbeitingarheimildir lögreglu í reglugerð.

Ögmundur segir ráðuneytið hafa haft málefnið til skoðunar um nokkurt skeið og telja að svo stöddu ekki tilefni til að búa lögreglulið rafbyssum.

„Í umfjöllun um rafstuðstæki er nauðsynlegt að gera greinarmun á straumi og spennu. Tækin sem hafa verið til skoðunar hér á landi gefa frá sér 50.000 volta spennu. Spennan lækkar þegar maður verður fyrir rafstuðinu niður í 1.200 volt. Straumurinn sem tækið gefur frá sér er hins vegar 0,0021 amper. Spennan sem tækið sendir frá sér hefur áhrif á skyntauga- og hreyfitaugakerfið og veldur tímabundinni tauga- og vöðvalömun (neural muscular incaptation). Sá sem fyrir skotinu verður stífnar upp og getur ekki hreyft sig á meðan tækið er í gangi," segir í svari Ögmundar.

Þar segir jafnframt: „Eins og fram kemur hér að framan telur ráðherra ekki ástæðu til að taka rafstuðstæki í notkun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×