Erlent

Og mun ég hvergi fara

Óli Tynes skrifar
Terrence Lakin gengur úr réttarsaleftir dóminn.
Terrence Lakin gengur úr réttarsaleftir dóminn. Mynd/AP

Bandarískur undirofursti hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi og rekinn úr hernum vegna þess að hann trúir því ekki að Barack Obama sé innfæddur bandarískur ríkisborgari. Samkvæmt stjórnarskránni geta aðeins slíkir orðið forsetar Bandaríkjanna. Terrence Lakin hefur verið hermaður í 17 ár. Herdómstóllinn gerði í sjálfu sér ekki athugasemdir við þessa skoðun ofurstans. Það var fyrir viðbrögð hans sem hann var dæmdur.

Lakin var skipað til þjónustu í Afganistan, en neitaði að fara á þeim forsendum að Barack Obama væri ekki löglegur forseti og hefði ekki rétt til þess að senda hann eitt eða neitt. Þótt Barack Obama hafi fyrir löngu lagt fram fæðingavottorð sem sýnir að hann var fæddur á Hawaii, trúa 25 prósent þjóðarinnar því að hann sé ekki innfæddur Bandaríkjamaður. Þessi hópur trúir því einnig að hann sé laumu-múslimi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×