Innlent

Þingmaður VG: Mun ekki heldur styðja ríkisstjórnina

Þuríður Backman þingmaður VG.
Þuríður Backman þingmaður VG.

Þingmaður Vinstri grænna segist eiga afar erfitt með að styðja þá ríkisstjórn sem ekki gerir allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva kaup Magma Energy á HS Orku.

Þuríður Backman, þingmaður Vinstri grænna, segir þungt hljóð í þingflokki Vinstri grænna vegna kaupa Magma Energy á HS Orku, enda gangi kaupin þvert á stefnu flokksins. Henni þyki sárt að sjá hversu langt kaupin hafa gengið.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri Grænna, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hún gæti ekki stutt ríkisstjórnina áfram ef ekkert verði gert í málinu og sagði að það væri ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar að aðhafast.

Þuríður tekur í svipaðan streng og segir að það verði að koma í veg fyrir að kaupin nái fram að ganga.

„Kaup þessa fyrirtækis sem eru að fara þessa leið, mér finnst þetta svo alvarlegur atburður fyrir alla framtíðina og stríðir svo gegn okkar stefnu að ég ætti mjög erfitt með að styðja þá ríkisstjórn sem gerir ekki allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þessi sala nái fram að ganga."

Þuríður segist treysta því að viðunandi lausn finnist til framtíðar litið svo fyrirtæki geti ekki farið fram hjá reglum um erlenda fjárfestingu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×