Íslenski boltinn

Ísland nánast öruggt með sæti í umspili um laust sæti á EM

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Kristinn Jónsson í baráttu við hinn leiftursnögga Dennis Diekmeier í leiknum í dag.
Kristinn Jónsson í baráttu við hinn leiftursnögga Dennis Diekmeier í leiknum í dag. Fréttablaðið/Anton
Aðeins átta þjóðir keppa um Evrópumeistaratitil undir 21 árs liða í Danmörku á næsta ári. Heimamenn fá sjálfkrafa þátttökurétt á mótinu en Ísland er í góðri stöðu eftir frábæran sigur á Þjóðverjum í dag. Tíu undanriðlar eru leiknir í undankeppninni. Ísland er í eina riðlinum þar sem fimm þjóðir leika, hinir riðlarnir telja allir sex þjóðir. Sigurvegarar riðlanna fara allir í útsláttakeppni um laust sæti á mótinu, ásamt fjórum þjóðum sem ná bestum árangri í öðru sæti. Að ná öðru sæti í riðlinum er því ekki ávísun á að komast í útsláttakeppnina. Þar sem riðill Íslands telur aðeins fimm þjóðir þarf að reikna út úrslit þjóðanna í hinum riðlunum án úrslitanna gegn þjóðinni sem lendir í síðasta sæti riðilsins. Holland og Spánn keppa til að mynda um efsta sætið í riðli fjögur. Liechtenstein er í neðsta sæti riðilsins og því detta úrslit bæði Spánar og Hollands gegn þeim út þegar reiknaður er árangur þjóðanna sem lenda í öðru sæti riðilsins. Þetta er að sjálfsögðu ekki gert í riðli Íslands þar sem þar eru aðeins fimm þjóðir. Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni er gegn Tékklandi þann 7. september ytra. Tékkar unnu San Marino örugglega í dag og hafa 18 stig í efsta sæti riðilsins en Ísland er með sextán. Ísland á aðeins einn leik eftir, gegn Tékkum sem eiga einnig eftir að mæta Þjóðverjum. Ísland þarf því að treysta á að Þjóðverjar vinni eða geri jafntefli gegn Tékkum til að eiga möguleika á efsta sætinu. Ísland þarf svo að vinna Tékka til að hirða toppsætið en liðið er reyndar með mjög góðan árangur í öðru sæti og er því líklegra en ekki að annað sætið dugi liðinu til að komast í útsláttarkeppnina.

Tengdar fréttir

Bjarni: Allt sem við lögðum upp með gekk upp

Bjarni Þór Viðarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var kampakátur eftir 4-1 sigurinn á Þjóðverjum í dag. Sigurinn fer langt með að tryggja Ísland í umspilsleiki um laust sæti á EM á næsta ári.

Stórbrotinn sigur íslenska U-21 árs liðsins á Þjóðverjum

Íslenska U-21 árs liðið í knattspyrnu fór á kostum í Kaplakrika í dag er það kjöldróg eitt sterkasta lið Evrópu, Þýskaland, í undankeppni EM. Ísland er komið með átta stiga forskot á Þýskaland í riðlinum og á annað sætið nokkuð víst. Liðið getur enn unnið riðilinn þess utan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×