Enski boltinn

Mun England reyna að koma Blatter frá völdum?

Elvar Geir Magnússon skrifar

Sunday Telegraph segist hafa heimildir fyrir því að enska knattspyrnusambandið hyggist blása í herlúðra og reyna að koma Sepp Blatter frá völdum sem forseti FIFA.

Samkvæmt blaðinu mun Alex Horne, stjórnarmaður hjá enska sambandinu, hafa samband við hæstráðendur hjá öðrum knattspyrnusamböndum og kanna hvort þeir fái stuðning í baráttunni gegn Blatter.

Englendingar eru trylltir yfir því að hafa aðeins fengið tvö atkvæði í framkvæmdastjórn FIFA þegar kom að því að kjósa hvar heimsmeistaramótið 2018 ætti að fara fram. Rússland varð fyrir valinu.

Enska knattspyrnusambandið vill aukið gagnsæi hjá FIFA og kallar eftir lýðræðislegri aðferð þegar velja á gestgjafa fyrir heimsmeistaramót.

Reiknað er með að Blatter sækist eftir endurkjöri á næsta ári en Englendingar vilja ekki sjá hann áfram í forsetasætinu enda telja þeir að hann hafi horn í síðu Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×