Innlent

Verðkönnun ASÍ: Algengasti munur 25-50%

Töluverður munur reyndist vera á nýjum jólabókum þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 12 verslunum víðsvegar um landið í árlegri jólabókakönnun sinni síðastliðinn þriðjudag. Könnunin tók til verðs á 43 algengum bókatitlum og algengast var að fjórðungs til helmings munur væri á milli verslana.

„Bónus var oftast með lægsta verðið á 17 titlum, en einnar krónu verðmunur var á Bónus og Krónunni á 9 af 10 bókatitlum sem til voru í báðum verslunum," segir í tilkynningu frá ASÍ. „Mál og menning Laugavegi og Penninn Eymundsson Kringlunni voru oftast með hæsta verðið, eða í 12 tilvikum, en Bóksala stúdenta var næst oftast með hæsta verðið, eða í 10 tilvikum."

Misgott úrval

Úrvalið reyndist misgott eftir verslunum, en allir 43 titlarnir sem skoðaðir voru í könnuninni voru fáanlegir í Mál og menningu, Pennanum-Eymundsson og Griffli að því er fram kemur í tilkynningunni. Hagkaup var með 42 titla, í A4 voru 41 titill fáanlegur og Bóksala stúdenta var með 40 titla. „Fæstir titlar í könnuninni voru fáanlegir í Krónunni Reyðafirði og Office 1 á Egilsstöðum."

„Minnsti verðmunurinn í könnuninni var á „Furðuströndum" eftir Arnald Indriðason sem var á lægsta verðinu hjá Nettó á 3.471 kr. en dýrust á 3.983 kr. í Bóksölu stúdenta sem er 15% verðmunur eða 512 kr," segir einnig.

ASÍ leggur áherslu á að í könnuninni sé aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. „Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum á þessum árstíma."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×