Innlent

Hnífur fannst í garði - gæti verið morðvopnið

Fjölskylda í Setberginu í Hafnarfirði fann hníf í bakgarðinum sínum í gærkvöldi og kom í hendurnar á lögreglunni. Samkvæmt heimildum Vísis fann íbúi hnífinn og spurðist fyrir hjá nágrönnum hvort þeir könnuðust við hann.

Það gerði hinsvegar enginn og var því ákveðið að kalla á lögregluna í ljósi þess að Hannes Þór Helgason var myrtur skammt frá fyrir um tveimur vikum síðan.

„Þetta er í athugun," sagði Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, aðspurður um hnífinn. Hann bætti við að það væri ólíklegt að hnífurinn tengdist málinu en það sé þó of snemmt að segja til um það. Lögreglan sé að rannsaka málið.

Þetta er ekki fyrsti hnífurinn sem lögreglan rannsakar eftir að morðið en morðinginn tók morðvopnið með af vettvangi.

Lögreglan rannsakar málið enn af kappi og yfirheyrslur standa yfir. Gunnar Rúnar Sigurþórsson var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir helgi vegna gruns um að hafa orðið Hannesi að bana. Hann neitar sök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×