Innlent

Vill ákæru fyrir afglöp í starfi

Guðmundur Gunnarsson
Guðmundur Gunnarsson

Guðmundur Gunnarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Álftanesi, vill að ríkissaksóknari taki afstöðu til þess hvort ákæra beri Sigurð Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóra, fyrir afglöp í starfi.

„Mér er algerlega ofboðið hvert framferði Sigurðar Magnússonar í starfi bæjarstjóra Álftaness frá júní 2006 til október 2009 er með öllu látið átölulaust. Manns sem ber mesta ábyrgð á klárum afglöpum, óvandaðri stjórnsýslu og klúrri meðferð á almannafé á Álftanesi,“ segir í bréfi Guðmundar til ríkissaksóknara. Guðmundur bætir meðal annars við að Sigurður hafi „orðið uppvís að afbrigðilegri hegðun“ og „sýnt af sér fullkomið gáleysi og ábyrgðarleysi“ í starfi.

Sigurður segist ekki hafa séð umrætt bréf. „Það er erfitt að gefa komment á það sem maður hefur ekki séð en í sjálfu sér kemur þetta ekki á óvart. Í fjögur ár er hann búinn að gera svipaða hluti og þennan; kæra ákvarðanir mínar til ráðuneytisins og fengið til baka svör um að mín störf hafi verið samkvæmt sveitarstjórnar­lögum,“ segir Sigurður.

Í komandi bæjarstjórnarkosningum leiðir Sigurður Á-listann. „Það er verið að þyrla upp moldviðri til að koma höggi á mig og ekkert annað. Það tekur enginn hér á Álftanesi mark á Guðmundi Gunnarssyni lengur. Hann hefur ekkert traust – ekki einu sinni hjá sínu fólki sem hafnaði honum í prófkjöri,“ segir Sigurður. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×