Fótbolti

Nelson Mandela mætir bæði á opnunar- og lokahátíð HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nelson Mandela í hópi landsliðsmanna Suður-Afríku.
Nelson Mandela í hópi landsliðsmanna Suður-Afríku. Mynd/AFP
Nelson Mandela hefur staðfest það að hann muni mæta bæði á opnunar- og lokahátíð HM í Suður-Afríku sem hefst eftir rúma viku. Báðar eru hátíðarnar í tengslum við leiki og fara þær báðar fram í Jóhannesarborg.

„Madiba mun heiðra okkur með nærveru sinni á báðum hátíðunum," sagði Jackson Mthembu talsmaður afríska þjóðarráðsins og notaði þar með ættbálkanafn Nelson Mandela.

Suður-Afríka mætir Mexíkó í opnunarleik HM á föstudaginn eftir rúma viku en úrslitaleikurinn fer síðan fram 11. júlí.

„Við erum mjög stoltir af því að Mandela heiðri okkur á þessum mikilvæga tímapunkti fyrir suður-afrísku þjóðina. Ég er mjög ánægður með að Mandela kemur. Madiba-töfrarnir gera þetta enn meira spennandi," sagði Mthembu.

Nelson Mandela er orðinn 91 árs gamall og hætti að koma opinberlega fram árið 2004. Hann kom þó óvænt fram á fundi á vegum afríska þjóðarráðsins fyrir kosningarnar í fyrra.

Mandela á að söfn talsmanna FIFA, sinn þátt í því að Heimsmeistarakeppnin fer nú í fyrsta sinn fram í Afríku. Hann hefur stutt við íþróttalífið í Suður-Afríku og það er fræg koma hans á úrslitaleik HM í rúgbý árið 1995 þegar Suður-Afríka tryggði sér gullið.

Það má sjá fjallað um það í myndinni Invictus þar sem Morgan Freeman lék Nelson Mandela og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir.

Mandela mætti einnig á úrslitaleikinn þegar Suður-Afríka vann Afríkukeppni landsliða á heimavelli árið 1996. Mandela mætti í búningi sinna liða á báða þessa leiki og hlaut mikið lof fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×