Innlent

Jóhanna Guðrún snýr aftur í Eurovision

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir snýr aftur í Eurovision þegar hún syngur lag Maríu Bjarkar Sverrisdóttur í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Jóhanna er öllum hnútum kunn í Söngvakeppninni, vann hana 2008 og fór með lagið Is It True? alla leið í annað sætið í Moskvu, sællar minningar.

Margir góðkunningjar úr Eurovision-keppnum síðustu ára birtast á skjáum landsmanna þegar flautað verður til leiks hinn 15. janúar og þau Ragnhildur Steinunn og Guðmundur Gunnarsson kynna keppendur af sinni alkunnu snilld. Sigurjón Brink mun til að mynda flytja lag sitt og Ragnars Hermannssonar, Jógvan Hansen ætlar sömuleiðis að flytja sitt lag sjálfur sem hann semur með Vigni Snæ Vigfússyni og þá ætlar hljómsveit Péturs Arnar Guðmundssonar, Buff, að syngja og spila lagið hans.

Nokkrir nýliðar þreyta jafnframt frumraun sína á Eurovision-sviðinu og nægir þar að nefna sjálfan Bödda úr Dalton sem syngur lag Ingva Þórs Kormákssonar ásamt JJ Soul Band. Dúettinn Íslenska sveitin með þeim Lísu Einarsdóttur úr síðustu Idol-keppni og Sigursveini Árna, fyrrverandi Luxor-kappa, þenur raddböndin í lagi Alberts Guðmanns Jónssonar og Bryndís Ásmundsdóttir ætlar að láta ljós sitt skína í lagi Jakobs Jóhannssonar. Þá mun Rakel Mjöll úr hljómsveitinni Útidúr syngja lag Tómasar Hermannssonar og Orra Harðarsonar og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Dalvík, Matthías Matthíasson, ætlar að halda suður og syngja lag Matthíasar Stefánssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×