Fótbolti

Fabio Cannavaro: Þið munuð sjá hið rétta ítalska landslið 14. júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Cannavaro, fyrirliði Ítala.
Fabio Cannavaro, fyrirliði Ítala. Mynd/AP

Fabio Cannavaro, fyrirliði Ítala, reyndi að sannfæra stuðningsmenn ítalska landsliðsins að liðið myndi sína allt annan og betri leik í fyrsta leik á HM en í 1-2 tapinu á móti Mexíkó í æfingaleik í gær.

„Við ætlum ekki að koma með einhverja afsökun en þrátt fyrir slæm úrslit þá var þessi leikur góð æfing fyrir okkur í undirbúningnum fyrir HM. Við þurfum að bæta okkur og við munum gera það. Við verðum klárir fyrir leikinn á móti Paragvæ," sagði Fabio Cannavaro sem getur orðið fyrsti fyrirliðinn til að lyfta heimsbikarnum tvisvar.

„Gagnrýnendur okkar verða alltaf í kringum okkur á HM og þeir eiga bara eftir að hjálpa okkur. Við verðum í góðu lagi alveg eins og fyrir fjórum árum. Þið munuð sjá hið rétta ítalska landslið 14. júní," sagði Cannavaro.

Knattspyrnuspekingar hafa ekki miklar áhyggjur af því að Ítalir komist ekki upp úr sínum riðli enda í einum auðveldasta riðli keppninnar með Paragvæ, Nýja-Sjálandi og Slóvakíu. Komist þeir áfram þá mæta þeir liðunum sem komast upp úr E-riðli þar sem spila Holland, Danmörk, Kamerún og Japan og þar má segja að HM-keppnin þeirra byrji af alvöru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×