Viðskipti erlent

SAS öskrar á hjálp, tapaði 50 milljörðum í fyrra

„SAS öskrar á hjálp" er fyrirsögnin á einum af dönsku vefmiðlunum í morgun þar sem fjallað er um taprekstur SAS flugfélagsins á síðasta ári. Tapið nam 2,2 milljörðum danskra kr. eða rúmum 50 milljörðum kr.

Hlutir í SAS hafa verið í frjálsu falli í kauphöllinni í Kaupmannahöfn frá opnun hennar í morgun og hafa misst 17% af verðgildi sínu hingað til. Er gengi hlutanna nú það lægsta í sögu félagsins.

Rekstur SAS gekk þó snöggtum betur í fyrra en árið 2008 þegar tapið var rúmlega tvöfalt meira. SAS þarf á nýju fjármagni að halda eftir mikinn taprekstur síðustu tveggja ára. En ekki er eining um það meðal stjórnvalda Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Eins og fram kom í frétt hér á síðunni í gær munu norsk stjórnvöld ekki hafa áhuga á að setja meira fé en orðið er í rekstur SAS.

Í frétt um uppgjörið í Jyllands Posten segir að SAS þurfi enn og aftur að grípa til sparnaðaraðgerða og að þær muni einkum bitna á starfsfólki félagsins. Starfsfólk verður beðið um að taka á sig frekari launaskerðingar. Auk þess eru uppsagnir framundan en um 2.000 starfsmönnum SAS var sagt upp í fyrra.

Samkvæmt fréttum í öðrum norrænum fjölmiðlum er rætt um að SAS þurfi um 5 milljarða norska kr. eða ríflega 100 milljarða kr. í frekari fjárhagsaðstoð frá eigendum sínum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×