Handbolti

Júlíus: Var of erfitt í of langan tíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari.
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari. Mynd/Ole Nielsen
Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari, sagði að tapið gegn Króatíu í kvöld hafi verið óþarflega stórt.

„Auðvitað hefði þetta litið strax betur út ef við hefðum tapað með 5-6 mörkum en við vorum í vandræðum nánast allan leikinn," sagði Júlíus.

Ísland lenti í miklum vandræðum í vörninni og náðu króatísku skytturnar sér á mikið flug í síðari hálfleik.

„Við ákváðum að halda okkur við 6-0 vörnina til að veita leikmönnum þægindatilfinningu. Þetta var okkar fyrsti leikur í stórmóti frá upphafi og við höfðum einnig áhyggjur af því að ef við færum of framarlega væri of mikið pláss fyrir króatísku sóknarmennina."

„En þetta small í raun aldrei. Það komu kaflar inn á milli þar sem við náðum að loka þessu. En aldrei héldum við sjó. Samspilið var ekki mikið á milli varnar og markmanns. Sjálfstraustið var ekki mikið en með því hefðum við getað náð betra spil í sókninni líka."

„En við vorum að spila á móti frábæru liði og vissum að þetta yrði erfitt. Ég veit að þær eiga heilmikið inni og munurinn á milli liðanna var ekki svo mikill. Þær voru kannski hraðari en ég gerði ráð fyrir út frá þeim upptökum sem ég hafði af liði Króata."

„Króatía lagði upp leikinn með því að keyra á okkur í byrjun og láta okkur finna fyrir því strax. Við fengum því aldrei það tækifæri sem við vorum að vonast eftir - að mæta liði sem væri enn sofandi. Það varð ekki raunin og þær voru klárar í þennan slag. Það gerði málin mun erfiðari fyrir okkur."

Ísland tapaði mörgum boltum í leiknum og gerði mistök, sérstaklega í sókninni, sem Króatarnir voru duglegir að refsa fyrir.

„Mistökin voru helst til of mörg hjá okkur í dag. Við vorum einnig að spila við hávaxna vörn og áttum erfitt með að ná skoti að utan. Það var ekki fyrr en táningurinn [Þorgerður Anna Atladóttir] kom inn á að eitthvað gekk í þeim efnum. Um leið og ekki gengur að skora af níu metrunum gengur illa að fá varnarmennina út og ná spili inn á sex metrana. Það gekk þó aðeins í fyrri hálfleik og hélt smá glóð í okkur."

„Við vissum að þetta yrði erfitt fyrir okkur en þetta var kannski þetta var kannski of erfitt í of langan tíma. Ég hefði viljað vera lengur inn í leiknum og geta verið í þeirri stöðu að eiga eitthvað inni fyrir síðasta korterið í leiknum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×