Innlent

Skoðaði þátt fjölmiðla í efnahagshruninu

Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Þrjú hundruð blaðsíðna skýrsla vinnuhóps sem leitaði svara við því hvort skýringar á falli íslensku bankanna mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði er tilbúin og á leið í prentun. Vilhjálmur Árnason prófessor leiddi hópinn en hann flytur erindið Siðferðileg greining bankahrunsins í málstofunni Hrunið, skýrslan, siðferði og hugmyndafræði á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands.

Þar mun Vilhjálmur ræða aðferðafræði hópsins.

„Við könnuðum siðferði og starfshætti í viðskiptalífinu og bankakerfinu, sömuleiðis í stjórnsýslu og stjórnmálum og við settum svo hlutina í víðara samhengi en kannski rannsóknarnefndin sjálf," segir Vilhjálmur.

„Við veltum fyrir okkur hvaða atriði í samfélaginu kunni að hafa búið í haginn fyrir það sem gerðist, eða að minnsta kosti ekki komið í veg fyrir það. Þar skoðuðum við hlut fjölmiðla og háskólanna."

Vilhjálmur hefur undanfarið ár helgað meirihluta tíma síns vinnu við skýrsluna eins og samstarfskonur hans í hópnum, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir.

„Við höfðum aðgang að gögnum rannsóknarnefndarinnar auk þess sem við kölluðum eftir fjölmörgum sjálf. Við áttum einnig frumkvæði að skýrslutökum, til dæmis yfir ritstjórum fjölmiðlanna," segir Vilhjálmur sem ekki getur rætt niðurstöður hópsins, því þær eru hluti af skýrslu rannsóknarnefndar. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×