Handbolti

Aron Pálmarsson: Finn rosalega til með Loga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik með landsliðinu.
Aron Pálmarsson í leik með landsliðinu. Mynd/AP
Aron Pálmarsson er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót með íslenska handboltalandsliðinu en þessi 19 ára strákur er á sínu fyrsta ári með Þýskalandsmeisturum Kiel. Aron gæti þó farið á mótið án fóstbróður síns Loga Geirssonar sem ól hann nánast upp í Kaplakrika á sínum tíma því Logi er í kapphlaupi um að ná sér góðum fyrir EM.

„Ég hef bara verið með í undirbúningi fyrir einstaka leiki eða bara fyrir tvo til þrjá leiki. Nú finnur maður spennuna í kringum stórmót," segir Aron.

„Maður er búinn að kynnast því að vera úti sem atvinnumaður og því að vera í ár með landsliðinu en maður finnur að þetta er toppurinn að vera fara á svona sterkt mót eins og Evrópumótið," segir Aron.

Aron segir einbeitinguna ráða för í öllu tengdu liðinu nú þegar aðeins vika er í að EM í Austurríki hefjist.

„Það er meiri alvara í þessu og menn eru miklu einbeittari. Ef maður er eitthvað að grínast þá fær maður strax skilaboð um að það eigi ekkert að vera svoleiðis. Það er bara vika í fyrsta leik og allir í hópnum eru mjög einbeittir," segir Aron.

Aron er eins og áður sagði mikill félagi Loga Geirssonar sem er berjast fyrir því að ná sér góðum af axlarmeiðslunum sem hafa hrjáð hann lengi og gætu hugsanlega haft af honum EM.

„Maður finnur samt rosalega til með honum og það væri geðveikt að fá hann út ef að hann nær því. Við er samt ekkert sami maðurinn," segir Aron sem eins og allir vonast til að Logi fái jákvæðar fréttir eftir æfinguna í kvöld og leikinn við Portúgal á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×