Fótbolti

Peter Crouch elskar Vuvuzela-(ó)hljóðin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Crouch og Fabio Capello.
Peter Crouch og Fabio Capello. Mynd/AFP
Peter Crouch er örugglega á annarri skoðun en flestir þegar kemur að Vuvuzela-lúðrunum því hinn stóri og stæðilegi framherji enska landsliðsins er mjög hrifinn af stemmingunni sem skapast á vellinum með lúðrunum.

Vuvuzela-lúðrarnir hafa verið gagnrýndir mikið á HM í Suður-Afríku og eru að gera margan sjónvarpsáhorfandann vitlausan. Crouch hefur hinsvegar bæst í hóp með Sepp Blatter, forseta FIFA, í að hrósa heimamönnunum fyrir (ó)hljóðin.

„Mér finnst Vuvuzela-lúðrarnir vera frábærir," sagði Peter Crouch í viðtali á heimasíðu enska knattspyrnusambandsins.

„Pabbi er meira segja búinn að fá sér einn svona lúður og hann blés í hann þar til eitt eftir miðnætti eftir síðasta leik," sagði Crouch.

„Þessi lúðrar skapa skemmtilegt andrúmsloft. Þetta er allt öðruvísi og þó að við séum ekki vanir þessu á Englandi þá er þetta mjög vinsælt hér úti," sagði Crouch.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×