Skoðun

Helgar tilgangurinn meðalið?

Nú hafa ýmsir fulltrúar Samfylkingarinnar látið hafa eftir sér stuðning við áform um að E.C.M. Program ltd., fyrirtæki sem í raun er einkaher, fái aðstöðu á Suðurnesjum. Ef rétt er eftir þeim haft þá er mér verulega misboðið.

Ég veit vel að það er atvinnuleysi á Suðurnesjum - eins og víðar um land og að þar eru margir fylgjandi því að þetta fyrirtæki fái leyfi og fyrirgreiðslu. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að nokkur raunveruleg störf séu þarna að baki enda allt mjög óljóst um fyrirtækið.

Veiting slíks leyfis myndi brjóta í bága við stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gera eigi Ísland að vettvangi fyrir friðarumræðu og leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnun í heiminum.

Einn atvinnulaus maður er einum manni of mikið. Atvinnuleysi er böl. Það afsakar þó ekki þjónkun við þá sem hafa stríðsrekstur að atvinnu. Afrakstur slíkrar starfsemi er enn þá verri en atvinnuleysisbölið.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þegar staða einnar þjóðar er eins og þeirrar íslensku nú þá flykkjast að alls kyns fjárplógsmenn sem sjá tækifæri til þess að græða á neyð smáþjóðar. Við þurfum að vanda okkur í atvinnuuppbyggingunni. Þó að við séum hnípin þjóð í vanda, megum við ekki selja sálu okkar. Við eigum að hafa lært af reynslunni þegar kemur að skyndilausnum. Við getum byggt upp atvinnu án hjálpar fyrirtækja á sviði herþjónustu.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík heldur fund um þetta mál og önnur atvinnumál á Hallveigarstíg 1, kl. 20.30 í kvöld. Þangað eru allir velkomnir.

Höfundur er varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×