Viðskipti innlent

Hagar minnka um þriðjung með sölu 10/11

Ein verslana 10-11 Fyrirtækið rekur 23 verslanir undir merkjum 10-11 á suðvesturhorninu og Akureyri. Fréttablaðið/vilhelm
Ein verslana 10-11 Fyrirtækið rekur 23 verslanir undir merkjum 10-11 á suðvesturhorninu og Akureyri. Fréttablaðið/vilhelm

Verslanir 10-11 hafa verið teknar út úr Haga-samstæðunni og verða þær settar í opið söluferli á næstu mánuðum. Þetta jafngildir því að Hagar verði í kringum þrjátíu prósentum minni en áður. Matvöruverslanir Haga verða eftir þetta 38 í stað 61.

Með sölu 10-11 er ætlunin að dreifa eignarhaldi á matvörumarkaði og gefa fleirum kost á því að láta að sér kveða á markaðnum, að því er segir í tilkynningu frá Arion banka.

Rekstri Haga var skipt upp í vor og nokkrar einingar færðar inn í aðskilin dótturfélög. Verslanir 10-11 fóru inn í eitt félag.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir ekki stefnt að því að selja fleiri verslanir úr Haga-samstæðunni aðrar en verslanir 10-11 og þær tískuverslanir sem samið var um að Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss, fái að kaupa.

Enga klásúlu er að finna í bókum Arion banka sem bannar Jóhannesi að kaupa verslanir 10-11.

Í samkomulagi hans við Arion banka á dögunum felst hins vegar að Jóhannesi og fjölskyldu hans er meinuð samkeppni við Haga á matvörumarkaði á næstu átján mánuðum. Höskuldur telur mjög líklegt að matvörukeðjan verði seld áður en fresturinn rennur út. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×