Handbolti

Anna Úrsúla: Náðum ekki að klukka þær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anna Úrsúla í baráttunni í kvöld.
Anna Úrsúla í baráttunni í kvöld. Mynd/Ole Nielsen
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir nýtti þau færi sem hún fékk gegn Króatíu í kvöld vel en segir að varnarleikurinn hefði þurft að vera miklu betri. Ísland tapaði leiknum, 35-25, í fyrstu umferð riðlakeppninnar á EM í Noregi og Danmörku.

„Við náðum ekki að klukka þær. Við vorum fastar við sex metrana og þær voru að hitta gríðarlega vel að utan. Þó svo að Króatía eru með stórara og skotvissar skyttur hefðum við samt átt að getað klukkað þær og strítt þeim í skotinu. Það gerðum við ekki," sagði Anna Úrsúla.

„Það var samt ýmislegt jákvætt hjá okkur. Seinni hálfleikur var frekar jafn á tölum. Hefðum við byrjað betur í leiknum og nýtt færin betur hefði þetta kannski litið öðruvísi út. En ef varnarleikurinn er ekki í lagi kemur markvarslan ekki heldur og þannig er ekki hægt að vinna leiki."

„Auðvitað hefðum við þurfta að eiga leik lífsins hérna í kvöld til að stríða þeim. Við reyndum en það gekk því miður ekki eftir. Við náðum ekki að sýna okkar rétta andlit."

„Við höfðum trú á sjálfum okkur og höfum enn. Það getur allt gerst í handbolta en það hefur margsýnt sig. Þá verður líka að vera barátta og vilji til staðar allan tímann. En þetta var ekki okkar dagur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×