Viðskipti innlent

Forstjóri Símans segir starfsfólki brugðið vegna húsleitar

Sævar Þráinsson, forstjóri Símans, telur að fyrirtækið hafi farið að lögum og reglum.
Sævar Þráinsson, forstjóri Símans, telur að fyrirtækið hafi farið að lögum og reglum. Mynd Pjetur.

„Okkur er töluvert brugðið," segir Sævar Þráinsson, forstjóri Símans, en Samkeppniseftirlitið er nú í höfuðstöðvum Símans í Ármúlanum og framkvæmir þar húsleit vegna gruns um mögulega misnotkun Símans á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði.

Það var farsímafyrirtækið Nova sem kvartaði til Samkeppnisyfirvalda en að sögn Sævars þá var rannsókn í gangi fyrir allnokkru. Síðan fengust þær upplýsingar að rannsóknin hefði verið látin niður falla. En svo virðist sem ný gögn hafi leitt til húsleitarinnar nú.

„Við erum 104 ára gamalt fyrirtæki og leggjum mikla áherslu á að fara eftir lögum og reglum," segir Sævar sem áréttar að það hafi ávallt verið stefna fyrirtækisins að aðstoða Samkeppniseftirlitið við rannsóknir þegar slík tilvik kæmi upp. Þetta er þó í fyrsta skiptið sem húsleit er framkvæmd í höfuðstöðvum Símans.

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins mættu í höfuðstöðvar Símans og Skipta klukkan níu í morgun. Áætlað er að þeir ljúki húsleitinni um hádegisbilið.

Sjálfur telur Sævar Símann hafa hreina samvisku. „Eins og staðan er nú teljum við að við séum að fara eftir lögum og reglum," segir Sævar sannfærður um sakleysi Símans.


Tengdar fréttir

Húsleit hjá Símanum - Nova kvartaði

Samkeppniseftirlitið gerði í morgun húsleit hjá Skiptum og Símanum vegna gruns um brot á Samkeppnislögum og stendur hún yfir samkvæmt tilkynningu frá Símanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×