Innlent

Spara á 540 milljónir í skólum Reykjavíkur

Í nýrri fjárhagsáætlun menntasviðs Reykjavíkur er gert ráð fyrir að hækka gjaldskrá mötuneyta grunnskóla borgarinnar um 10 prósent, auk þess sem í þeim verði dregið úr kostnaði. Fréttablaðið/Anton
Í nýrri fjárhagsáætlun menntasviðs Reykjavíkur er gert ráð fyrir að hækka gjaldskrá mötuneyta grunnskóla borgarinnar um 10 prósent, auk þess sem í þeim verði dregið úr kostnaði. Fréttablaðið/Anton
Draga á saman um helming í starfsemi bókasafna grunnskóla Reykjavíkur og skera niður námsráðgjöf um tíu prósent, samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun menntasviðs borgarinnar. Auk þess á að lækka viðbótarstjórnendakostnað um tíu prósent, sem og kostnað vegna matráða í mötuneytum, við ritara og umsjónarmenn húsnæðis.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins nemur heildarupphæð fyrirhugaðra hagræðingar­aðgerða frá rúmum 540 milljónum til tæpra 570 milljóna króna, eða sem svarar 3,9 prósentum af heildarútgjöldum Reykjavíkurborgar vegna grunnskóla.

Fyrirhugaður niðurskurður var kynntur í skólaráðum grunnskólanna síðastliðinn fimmtudag. Fyrir dyrum standa síðan viðtöl menntasviðs við einstaka skólastjóra þar sem farið verður yfir hvernig þeir sjá fyrir sér að ná settum markmiðum. Endanleg útfærsla í einstökum skólum á svo að liggja fyrir hinn 15. næsta mánaðar.

Heimildir blaðsins herma að líklega þurfi að koma til uppsagna í einhverjum skólum, en umfang þeirra liggi ekki fyrir. Eigi að segja upp eða gera breytingar á starfshlutfalli almennra starfsmanna þurfi það hins vegar að gerast fyrir 1. febrúar. Ef segja þarf upp kennurum þarf það að gerast fyrir 1. maí.

Niðurskurðinum er skipt í þrennt, en endurskipulagning á skólastarfi á að skila yfir 100 milljóna króna sparnaði. Breytingar á innri leigu þar sem hætt yrði að nýta sem nemur 8.000 fermetrum af húsnæði eiga að skila nálægt 160 milljónum og margvíslegar hagræðingaraðgerðir sem skólastjórnendur eiga sjálfir að útfæra eiga að skila tæplega 300 milljónum.

Komi allur fyrirhugaður niðurskurður til framkvæmda er ljóst að áhrif á skólastarf verða umtalsverð. Sér í lagi gætir þar áhrifa í 9,4 prósenta samdrætti í úthlutuðum kennslustundum, en það er sá rammi sem skólanum er ætlað að starfa innan til að uppfylla kröfur um lögbundinn kennslustundafjölda og bjóða upp á sveigjanlegt skólastarf. Þessar breytingar eru sagðar koma afar misjafnlega niður á skólum eftir stærð.

Vitað er um dæmi þar sem niðurskurður úthlutaðra kennslustunda þýðir niðurskurð sem svarar einni til einnar og hálfrar kennarastöðu. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×