Enski boltinn

Evra: Suarez sagðist ekki tala við svertingja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enska knattspyrnusambandið hefur opinberað rannsóknargögn sem leiddu til þess að Luis Suarez, leikmaður Liverpool, var dæmdur í átta leikja bann af sambandinu.

Suarez var gefið að sök að hafa verið með kynþáttaníð í garð Patrice Evra, leikmann Manchester United, í leik liðanna í haust.

Helstu sönnunargögn málsins eru vitnisburður Evra. Hann spurði Suarez í leiknum af hverju hann hefði brotið á sér.

„Vegna þess að þú ert svartur," mun Suarez hafa sagt þá.

„Ef þú segir þetta aftur við mig þá kýli ég þig," svaraði þá Evra.

„Allt í lagi, svertingi, svertingi, svertingi," sagði Suarez og kom lítillega við Evra um leið.

Dirk Kuyt skarst þá í milli og dómarinn kallaði leikmennina til sín. „Dómari, dómari - hann kallaði mig helvítis svertingja," sagði Evra þá við dómarann.

Samskiptin fóru fram á spænsku. Suarez neitaði sök en rannsakendur sögðu að vitnisburður hans hafi ekki verið trúverðugur og að hann hafi verið ósamkvæmur sjálfum sér í frásögn sinni af atvikum mála.

Liverpool hefur í hyggju að áfrýja dómnum en þarf að gera það þann 3. janúar í síðasta lagi. Rannsóknargögnin má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×