Enski boltinn

Ótrúlegur sigur Blackburn á Old Trafford

Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson fékk heldur lélega afmælisgjöf á sjötugsafmæli sínu þar sem hans menn í Manchester United töpuðu fyrir botnliði Blackburn, 3-2, á heimavelli sínum.

Blackburn komst 2-0 yfir í leiknum áður en Dimitar Berbatov náði að jafna metin með tveimur mörkkum snemma í seinni hálfleik.

Grant Hanley var svo hetja Blackburn þegar hann skoraði sigurmark liðsins með skalla tíu mínútum fyrir leikslok.

Sannarlega ótrúleg úrslit og mistókst því United að fara á topp deildarinnar um sinn því Manchester City á leik síðar í dag.

Blackburn var í botnsæti deildarinnar fyrir leikinn en er nú í átjánda sætinu með fjórtán stig. Óhætt er að fullyrða að þetta er langstærsti sigur Steve Kean á ferlinum en hann hefur verið afar óvinsæll hjá stuðningsmönnum Blackburn.

Þeir fagna sigrinum væntanlega vel og innilega þrátt fyrir því og setja „Kean Out"-borðana sína í geymslu í bili.

Berbatov gerði sig sekan um skelfilega mistök í upphafi leiks þegar hann togaði niður Chris Samba í vítateig United. Víti var dæmt og Yakubu skoraði af öryggi.

Lítið annað gerðist í fyrri hálfleik en Yakubu gerði sér lítið fyrir og kom Blackburn í 2-0 forystu með laglegu skoti.

United náði þó að minnka muninn aðeins mínútu síðar og var Berbatov þar að verki með skalla af stuttu færi. Búlgarinn skoraði öðru sinni tíu mínútum síðar með skoti eftir flottan undirbúning frá Antonio Valencia.

Þar með héldu margir að United myndi láta kné fylgja kviði en allt kom fyrir ekki. Blackburn lagði allt kapp á að sækja og skoraði hinn ungi Grant Hanley með skalla eftir hornspyrnu Morten Gamst Pedersen á 80. mínútu. Þar við sat og ótrúleg niðurstaða staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×