Erlent

Papandreú lofar að berjast til þrautar

Fjölmenn mótmæli gegn Papandreú og stjórn hans hafa verið linnulítil undanfarið.
Fjölmenn mótmæli gegn Papandreú og stjórn hans hafa verið linnulítil undanfarið. Mynd/nordicphotos/AFP
Georgíos Papandreú Segist ekki geta hlaupist undan erfiðri glímu við fjármálakreppuna. nordicphotos/AFP
Vaxandi ótti er við að atburðirnir í Grikklandi muni smita út frá sér með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag Evrópusambandsríkjanna, einkum þó þeirra sem nota evruna.

Meðan Georgíos Papandreú, forsætisráðherra Grikklands, reynir allt hvað hann getur til að afla frekari aðhaldsaðgerðum meirihluta á þingi sitja ráðamenn, embættismenn og sérfræðingar í Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sveittir við útreikninga á því hve háum fjárhæðum þurfi að veita Grikkjum til viðbótar björgunarpakka þeim upp á 110 milljarða evra, sem samþykktur var fyrir rúmu ári.

Markaðsöflin óttast að Evrópusambandið annað hvort treysti sér ekki til eða geti ekki komið sér saman um að veita Grikkjum viðbótaraðstoð, með þeim afleiðingum að gríska stjórnin geti ekki greitt næstu afborganir af skuldum sínum.

Það þýðir að grískir bankar, sem hafa lánað grísku stjórninni um þriðjung skuldanna, færu á hausinn með tilheyrandi tapi fjárfesta og hugsanlegri keðjuverkun til annarra illra stæða evruríkja, með afdrifaríkum afleiðingum fyrir evruna og þar með öll evruríkin.

Þýska stjórnin vill sem fyrr fara sér hægt í að auka fjárhagsaðstoð, enda hefur hún borið þungann af greiðslum til Grikkja til þessa.

Ástandið hefur gert grísku stjórnina nánast óstarfhæfa.

Papandreú sat á neyðarfundi með flokksfélögum sínum í gær, en mikil andstaða hefur verið meðal sumra flokksmanna við frekari aðhaldsaðgerðir, sem Papandreú hefur reynt að fá þingið til að samþykkja.

Hann bauðst á miðvikudag til að segja af sér ef það yrði til þess að hægt yrði að mynda þjóðstjórn sem gæti tryggt fylgi við aðhaldsaðgerðirnar. Þær tilraunir fóru út um þúfur en þess í stað sagðist Papandreú ætla að stokka upp í ríkisstjórninni. Hann segist ótrauður ætla að halda áfram baráttu sinni, þrátt fyrir vaxandi andstöðu innan raða flokksfélaga hans.

„Við munum hafa sigur og við munum þrauka,“ sagði hann í gær. „Þótt þessi barátta sé svo erfið sem raun ber vitni getum við ekki hlaupist undan henni.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×