Darren Clarke hefur eins höggs forystu á Dustin Johnson fyrir loka hringinn á Opna Breska meistaramótinu í golfi en mótið fer fram á Royal St George's vellinum á Englandi.
Clarke lék hringinn í dag á einu höggi undir pari en veðrið var slæmt og aðstæður nokkuð erfiðar, en Norður-Írinn er á fimm höggum undir pari samtals í efsta sætinu.
Dustin Johnson lék á tveimur höggum undir pari í dag og er yfir heildina litið á fjórum höggum undir pari í öðru sæti.
Næstir koma þeir Rickie Fowler og Thomas Björn á tveimur höggum undir pari og verða þeir í næstsíðasta ráshóp fyrir lokahringinn.

