Erlent

Kóngurinn stamandi með tólf Óskarstilnefningar

Aðalleikarar The King's Speech eru þau Helena Bonham Carter, Colin Firth og Geoffrey Rush. Þau eru öll tilnefnd til Óskars fyrir leik sinn.
Aðalleikarar The King's Speech eru þau Helena Bonham Carter, Colin Firth og Geoffrey Rush. Þau eru öll tilnefnd til Óskars fyrir leik sinn.

Kvikmyndin The King's Speech fær flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna þetta árið, alls tólf talsins. Tilnefningarnar voru lesnar upp í Hollywood rétt í þessu.

The King's Speech fjallar um Georg VI Englandskonung sem þurfti að liðka um málbeinin og vinna bug á stami til að hvetja þjóð sína til dáða í seinni heimsstyrjöld.

Margir höfðu vonast eftir því að söngvarinn Jónsi yrði tilnefndur fyrir lag sitt í kvikmyndinni How To Train Your Dragon en svo var ekki. Myndin var aftur á móti tilnefnd fyrir frumsamda kvikmyndatónlist og sem besta teiknimyndin.

Þá var talað um að kvikmynd Friðriks Þórs, Mamma Gógó, kæmi til greina sem besta kvikmyndin á öðru tungumáli en ensku, en þar voru tilnefndar myndir frá Danmörku, Grikklandi, Mexíkó, Kanada og Alsír.

Næst á eftir King's Speech í fjölda tilnefninga er vestrinn True Grit eftir Coen-bræður með 10 tilnefningar. Þar á eftir fylgja Inception og Social Network, með átta tilnefningar hvor, og The Fighter með sjö.

The King's Speech, True Grit, Inception, Social Network, Black Swan, The Fighter, The Kids Are All Right, 127 Hours, Toy Story 3 og Winter's Bone eru þær tíu myndir sem eru tilnefndar sem besta mynd ársins.

Hægt er að sjá allar tilnefningarnar á vef Óskarsverðlaunanna, oscar.go.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×