Erlent

Segjast hafa lagt undir sig um það bil þúsund fer­kíló­metra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tugþúsundir íbúa Kursk hafa neyðst til að flýja heimili sín eftir innrás Úkraínumanna.
Tugþúsundir íbúa Kursk hafa neyðst til að flýja heimili sín eftir innrás Úkraínumanna. AP

Hershöfðinginn Oleksandr Syrski greindi Vólódimír Selenskí Úkraínuforseta frá því í gær að hersveitir landsins hefðu lagt um það bil þúsund ferkílómetra undir sig í Kursk í Rússlandi.

Aðgerðin stæði enn yfir.

Nokkrum klukkustundum áður en Syrski og Selenskí ræddu saman hafði Alexei Smirnov, starfandi héraðsstjóri Kursk, áætlað að Úkraínumenn hefðu náð um það bil 28 þéttbýliskjörnum á sitt vald, á svæði sem væri um það bil 40 km breitt og næði um 12 km inn í landið.

Úkraínumenn hafa gefið lítið upp um innrás sína inn í Rússland, sem virðist hafa komið yfirvöldum í Rússlandi verulega á óvart. Um það bil 121 þúsund íbúar Kursk hafa flúið heimili sín að sögn Smirnov, tólf almennir borgarar látist og 121 særst.

Yfirvöld í Kursk greindu frá því í gær að þau hefðu ákveðið að rýma Belovsky, þar sem íbúar telja um 14 þúsund, og þá ákváðu yfirvöld í Belgorod að rýma Krasnoyaruzhky.

Selenskí sagði í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi að aðgerðin varðaði öryggismál en Rússar hefðu gert ófáar árásir á Úkraínu frá Kursk. Sumy-hérað hefði tli að mynda orðið fyrir 2.100 árásum frá Kursk frá byrjun sumars.

„Fyrst Pútín er svona staðráðinn í því að berjast verður að neyða Rússland til að semja um frið,“ sagði Selenskí. „Rússar færðu öðrum stríð og nú sækir það þá heim.“

Andriy Zagorodnyuk, fyrrverandi varnarmálaráðherra Úkraínu, sagði í samtali við Reuters að svo virtist sem aðgerð Úkraínumanna í Kursk virtist ætlað að dreifa athygli Rússa frá aðgerðum í Úkraínu. Þá hefur AFP eftir úkraínskum embættismanni að hann geri ráð fyrir að Rússar muni að lokum hrinda sókninni inn í Kursk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×