Geislavirkt efni lekur nú úr kjarnorkuverinu Fukushima eftir að þriðja sprengingin varð í verinu í nótt. Mælist geislavirknin í grennd við kjarnorkuverið langt yfir hættumörkum.
Af þessum sökum hefur Naoto Kan, forsætisráðherra Japans, í morgun hvatt íbúa í allt að 30 kílómetra fjarlægð frá Fukushima til að halda sig innandyra.
Veðurátt er nú þannig að geislavirkt efni berst í átt til Tókýó og hefur þetta valdið skelfingu meðal borgarbúa.
Sérfræðingar sem vinna við að koma í veg fyrir kjarnorkuslys í Fukushima hafa hingað til lagt áherslu á að kæla kjarnakljúf númer tvö í kjarnorkuverinu en úransstangir hans misstu kælivatn sitt og voru þurrar í yfir tvo tíma í gærdag. Slíkt eykur mjög hættu á að kjarnorkukljúfurinn bræði úr sér og geislavirk efni leki út í andrúmsloftið.
