Innlent

Telur ólíklegt að bankinn hafi brotið lög

Fjármálaráðherra frétti fyrst af aðgerðum Landsbankans í fjölmiðlum og segir það fullkomlega eðlilegt. fréttablaðið/gva
Fjármálaráðherra frétti fyrst af aðgerðum Landsbankans í fjölmiðlum og segir það fullkomlega eðlilegt. fréttablaðið/gva
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir nýja aðgerðaráætlun Landsbankans vera það veigamikla að nauðsynlegt sé að skoða hana til hlítar.

Rætt var um málið á fundi fjárlaganefndar í gærmorgun og er það í fyrsta sinn sem þingið tekur það fyrir síðan aðgerðir bankans voru kynntar.

„Við byrjum á því að afla upplýsinga og skoða þessar aðgerðir, sem er fullkomlega eðlilegt,“ segir Steingrímur. „Athuga þarf sér í lagi hvort þessi skuldaniðurfelling sé innan þess ramma sem búið er að setja fjármálastofnunum.“ Steingrímur segir að nú þegar sé búið að veita mjög víðtækar undanþágur á skuldaniðurfellingar fyrir heimilin og frekari eftirgjöf á skuldum gæti þýtt skattlagningu við venjulegar aðstæður.

„Það var búið að búa til mjög rúmar undanþágureglur vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru uppi. Við höfum takmarkaða fjármuni í greiðslur vaxtabóta,“ segir hann. „En ekkert hefur enn verið ákveðið og það er einungis verið að afla upplýsinga.“ Hann telur afar ólíklegt að bankinn sé með einum eða öðrum hætti að brjóta lög með þessum breytingum.

Steingrímur frétti fyrst af breyttum aðgerðum Landsbankans í fjölmiðlum og segir hann það fullkomlega eðlilegt. „Ég sem fjármálaráðherra hef engin afskipti af starfsemi bankans. Hann starfar bara á ábyrgð sinnar stjórnar,“ segir Steingrímur.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×