Luke Donald sigraði á heimsmótinu í holukeppni sem lauk í gær í Arizona í Bandaríkjunum en enski kylfingurinn hafði betur gegn Þjóðverjanum Martin Kaymer í úrslitaleiknum 3/2. Fyrir sigurinn fékk Donald um 160 milljónir kr. í verðlaunafé.
Þetta er fyrsti sigur Donald í Bandaríkjunum frá árinu 2006 en margir voru farnir að efast um að hann gæti blandað sér í baráttuna um efstu sæti heimslistans. Donald byrjaði gríðarlega vel gegn Kaymer í úrslitaleiknum sem fór fram við undarlegar aðstæður í eyðimörkinni í Arizona þar sem að haglél og kaldir vindar voru í aðalhlutverki að þessu sinni.
Kaymer náði efsta sæti heimslistans í fyrsta sinn á ferlinum með árangri sínum en hann velti Lee Westwood úr efsta sætinu.
Donald sýndi styrk sinn á þessu móti en hann lék m.a. aldrei 18 brautina á keppnisvellinum þar sem hann var ávallt búinn að sigra mótherja sína áður. Donald er nú í þriðja sæti heimslistans og Tiger Woods er í því fimmta en hann féll úr keppni í strax í fyrstu umferð. Norður-Írinn Graeme McDowell er í því fjórða.
Eins og áður segir hafði Donald ekki sigrað á golfmóti frá árinu 2006 en hinn 33 ára gamli Donald hafði aldrei sigrað áður á heimsmótaröðinni.
Heimsmótið í holukeppni fór fram í 13. sinn en úrslitaleikurinn var aðeins 18 holur en úrslitaleikirnir hafa ávallt verið 36 holur. Veðrið setti keppnishaldið úr skorðum og voru kylfingarnir vel klæddir í vetrarveðrinu.
